Velkomin á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um byggingarvörur
Spurt og svarað
Hvaða byggingarefni á að vera vottað?
Um byggingarvörur gilda lög um byggingarvörur nr. 114/2014. Lögin gera kröfu um að byggingarvara sé CE merkt þegar fyrir hendi er samhæfður staðall um vöruna. Nú þegar eru fyrir hendi um 450 slíkir staðlar. Lista yfir samhæfða staðla má finna á þessari heimasíðu og einnig á heimasíðu Staðlaráðs Íslands. Sé ekki fyrir hendi samhæfður staðall gilda ákvæði III. kafla laga um byggingarvörur. Sá kafli laganna fjallar um byggingarvörur sem falla ekki undir kröfuna um CE merkingu. Þar er birtur listi yfir eiginleika sem ber að staðfesta í samræmi við nánari ákvæði laganna.
Hvað þarf að hafa í huga varðandi innflutning á byggingarvörum?
Að vara sé CE merkt, falli hún undir samhæfðan staðal, og henni fylgi yfirlýsing framleiðanda um nothæfi. Jafnframt er mikilvægt að kanna hvort yfirlýsing framleiðanda um nothæfi vörunnar sýni að varan henti til notkunar við íslenskar aðstæður. Falli vara ekki undir ákvæði samhæfðs staðals og fyrirhuguð notkun vörunnar í mannvirki varðar einhvern þeirra sérstöku eiginleika sem upp eru taldir í 10. gr. laga um byggingarvörur ber að fylgja vörunni yfirlýsing framleiðanda um nothæfi og staðfesting nothæfis sbr. III. kafla laga um byggingarvörur.
Gilda evrópskar CE-vottanir og evrópskir staðlar á Íslandi?
Gert er ráð fyrir að með CE vottun sé átt við CE merkta byggingarvöru. Sé byggingarvara rétt CE merkt og henni fylgir yfirlýsing um nothæfi er varan lögleg á markaði. En til að varan sem er lögleg á markaði henti til notkunar í mannvirki, þarf yfirlýsingin um nothæfi að sýna að varan hafi þá eiginleika sem krafist er í hönnunargögnum eða lögum og reglugerðum.